Um höfundinn

 

 

Björgvin Þ. Valdimarsson

 

Björgvin Þ. Valdimarsson – Tónlistarferill

 

Björgvin Þór Valdimarsson fæddist á Selfossi 15. apríl 1956. Ungur að árum hóf hann að læra á trompet og píanó í Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi undir handleiðslu Ásgeirs Sigurðssonar og Jónasar Ingimundarsonar. Hann þótti strax efnilegur tónlistarmaður og vann til verðlauna fyrir góðan námsárangur í tónlistarskólanum.

Árið 1974 innritaðist hann í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan þremur lokaprófum, þ.e.a.s. Tónmenntakennaraprófi, Blásarakennaraprófi og að lokum Píanókennaraprófi, en því lauk hann árið 1983. Hin síðari ár hefur Björgvin stundað nám í gítarleik hjá Þorvaldi Má Guðmundssyni gítarleikara. Auk þess hefur hann sótt fjöldann allan af námskeiðum bæði hér heima og erlendis í píanókennslu og kórstjórn.

Samhliða námi sínu, þá kenndi Björgvin lítilsháttar við Tónlistarskóla Árnesinga auk þess að vera undirleikari Karlakórs Selfoss og stjórnandi Samkórs Selfoss um árabil, en Björgvin var rúmlega tvítugur þegar hann tók við stjórn Samkórsins. Það var mikill krafur í starfi kórsins á þessum árum, en í kórnum voru rúmlega sextíu félagar og hélt kórinn ávallt þrenna vortónleika á Selfossi fyrir fullu húsi öll þau ár sem Björgvin stjórnaði kórnum. Það má geta þess, að á fyrstu vortónleikum kórsins  undir stjórn Björgvins árið 1977, þá frumflutti kórinn tvö lög eftir hann, en það voru lögin Hvísl við texta Þorsteins Valdimarssonar og lagið Sýnin við texta Stefáns frá Hvítadal, en Björgvin spilaði sjálfur trompetsólóið með kórnum.  Þetta voru fyrstu lög Björgvins sem  heyrðust opinberlega.

Vorið 1983 sagði Björgvin starfi sínu lausu sem stjórnandi Samkórsins og einnig kennarastöðu sinni við Tónlistarskóla Árnesinga og flutti til Reykjavíkur. Um haustið gerðist hann kennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónmenntaskóla Reykjavíkur, en auk þess tók Björgvin við stjórn Skagfirsku söngsveitarinnar í Reykjavík sem hann stjórnaði samfellt í 25 ár. Árið 1988 færði hann sig alfarið yfir í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og varð yfirkennari skólans frá árinu 1991 til ársins 1997, en það ár lét hann af störfum við skólann og stofnaði sinn eigin skóla sem heitir Tónskóli Björgvins Þ. Valdimarssonar.

Á árunum upp úr 1985 fór Björgvin að þróa og semja námsefni fyrir byrjendur í píanóleik og trompetleik, en árið 1988 gaf hann út fyrstu bókina í bókaflokknum “Píanó-leikur” en það er kennslubók fyrir byrjendur í píanóleik sem heitir “Píanó-leikur 1. hefti. Þessi bókaflokkur telur í dag 10 titla. Bækurnar eru mjög vinsælar meðal kennara og nemenda og eru mikið notaðar til kennslu í tónlistarskólum um allt land.

Allt frá því að Björgvin hóf nám í Tónlistarskóla Árnesinga hefur hann fengist við að semja og útsetja tónlist. Mest hefur hann skrifað fyrir kóra, einsöngvara og píanó. Til þess að átta sig á umfanginu þá eru á skrá hjá Stefi um það bil 90 verk sem hafa verið gefin út á diskum eða flutt í útvarpi.

Nótnabækur með frumsömdu efni fyrir kóra, einsöngvara og píanó eftir Björgvin eru alls 12 talsins.  Fjöldinn allur af karlakórum, blönduðum kórum, kvennakórum, barnakórum, einsöngvurum og sönghópum ýmiskonar hafa gefið út lög eftir hann á geisladiskum.

Haustið 2005 gaf Björgvin svo út eiginn geisladisk, en hann heitir “Undir Dalanna sól”, eftir laginu sem er líklegast hans þekktasta lag. Til gamans má geta þess, að það er búið að gera færeyskan texta við lagið og einnig er búið að gefa það út á Álandseyjum með sænskum texta. Á diskinum eru 14 lög, þar sem hann blandar saman gömlum og nýjum lög.

Árið 2009 gaf svo Björgvin út geisladiskinn “Allt sem ég er”, en á honum eru 13 lög í flutningi ýmissa listamanna

 

Helstu verk:

  1. Solveig á Miklabæ – verk fyrir blandaðan kór, hljómsveit og 3 einsöngvara (30 mín.)
  2. Jörð – verk fyrir blandaðan kór, hljómsveit og tvo einsöngvara (23 mín.)
  3. 12 píanólög (útg. 1988)
  4. 12 einsöngslög og 2 dúettar (útg. 1984)
  5. Sönglög fyrir blandaðan kór 1. hefti og 2. Hefti (útg. 1998)
  6. Ljóð er söngur – lög við ljóð eftir Þorstein Valdimarsson og Guðfinnu Þorsteinsdóttur (útg. 2000)
  7. Fimm jólalög og þrjú trúarleg lög fyrir kvenna- og barnakór (2001)