Tónskóli Björgvins

Píanó-gamalt

Tónskóli Björgvins Þ. Valdimarssonar

Innritun:

Tónskóli Björgvins í Hamraskóla fer nú að hefja starfsemi sína og mun hann starfa innan Hamraskóla eins og á síðastliðnum skólaárum. Þeir nemendur sem eru nú þegar búnir að sækja um nám í Tónskólanum veturinn 2017-2018 fá sent bréf með upplýsingum vegna innritunar á næstu dögum. Innritun verður í Hamraskóla mánudaginn 28. ágúst og þriðjudaginn 29. ágúst frá kl. 17:00 – 18:30 báða dagana. Kennsla í Tónskólanum hefst fimmtudaginn 31. ágúst samkvæmt stundaskrá.

Umsóknir vegna nýrra nemenda berist á netfangið: bjorgvinva@simnet.is

Tónskóli Björgvins er sjálfstætt starfandi tónlistarskóli sem var stofnaður haustið 1997 og var aðsetur hans til að byrja með í Stóragerði 5 í Reykjavík. Þar starfaði hann til ársins 2007 en þá um haustið fluttist starfsemi hans í Hamraskóla í Grafarvogi.

Tónskóli Björgvins með aðsetur í Hamraskóla

Boðið er upp á hálft nám (1×25 mínútur á viku) eða heilt nám (2×25 mínútur á viku).
Engir tónfræðitímar eru í boði fyrir nemendur, heldur er tónfræði, tónheyrn og hljómfræðikennsla fléttuð inn í hljóðfæranámið.
Lögð er áhersla á að kenna nótnalestur og byggja upp tæknilega getu nemandans á markvissan hátt og einnig að kenna nemandanum að lesa hljómabókstafi og vinna með þá.
Hvert atriði er tekið fyrir í smáum skrefum, eins og nótnaheiti, nótnagildi, þagnagildi og hrynur.

Nemendur koma fram á fernum tónleikum yfir veturinn þar sem þeir spila fyrir aðstandendur og aðra gesti. Einu prófin sem tekin eru við skólann eru stigspróf.
Tónskóli Björgvins er með aðild að Frístundakortinu.

Í boði er að læra á eftirtalin hljóðfæri: Píanó, kassagítar, rafmagnsbassa, blokkflautu, harmoníku og trompet.

Lykillinn að samstarfi Tónskóla Björgvins og Hamraskóla

“Söngur á sal” er söngstund þar sem allir nemendur Hamraskóla koma saman í sal skólans og syngja saman ýmis lög auk þess koma bekkirnir reglulega með atriði sem þeir hafa undirbúðið ásamt kennara sínum í samvinnu við mig, sem þau flytja fyrir hina bekkina. Þessi stund er lykillinn að raunverulegu samstarfi skólanna vegna þess að þar er starf Tónskóla Björgvins hvað sýnilegast innan veggja Hamraskóla.

Alveg frá fyrsta degi settist ég sjálfur við hljóðfærið kl. 8:00 á föstudagsmorgnum (en þá er söngur á sal) og lék allskonar tónlist þegar nemendur og starfsfólk streymdi inn í skólann, þar til allir höfðu komið sér fyrir í sal skólans og biðu eftir að söngstundin byrjaði.
Í dag sjá nemendur Tónskóla Björgvins nánast alfarið um þennan tónlistarflutning. Einnig koma nemendur tónskólans fram við ýmis önnur tækifæri innan Hamraskóla.