Að spila á píanó eftir eyranu 1. hefti

 Að spila á píanó eftir eyranu 1. hefti

728015 Ad spila eftir eyranu 1. hefti

 

Undanfarin ár hef ég verið að þróa kennsluaðferð sem ég nefni blandaða aðferð. Hún miðar að því að kenna nemandanum tónlist á svipaðan hátt og hann lærir móðurmálið. Barnið byrjar ekki á að læra tungumálið á fræðilegan hátt, heldur lærir fyrst stök orð og fer síðan að tengja þau saman og mynda setningar. Fyrst stuttar setningar, en eftir því sem færnin eykst þá lengjast þær. Á sama hátt hugsa ég þessa aðferð. Byrjað er á því að vinna með lítil einföld lög, sem nemandinn hefur lært sem lítið barn.

Til að búa til þekkingargrunn hjá nemandanum þarf sífellt að endurtaka sömu hlutina og bæta síðan smátt og smátt við þann grunn, sem nemandinn hefur tileinkað sér. Á sama hátt verður hann hæfari til að takast á við erfiðari verkefni. Þetta er nákvæmlega eins og með tungumálið, að orðin eru sífellt endurtekin og smátt og smátt festast þau og merking þeirra í huga barnsins. Jafnframt þessari aðferð lærir nemandinn nótnalestur.

Helstu grunnþættir þessarar aðferðar eru að:

1) þjálfa heyrn nemandans. – Einbeita sér að hlustun en ekki nótum, með því að láta nemandann spila einföld lög eftir eyranu (eftir minni) í ýmsum tóntegundum.

2) þjálfa nemandann í að greina tónbil.  –  Læra muninn á hálftóns- og heiltónsbilum, litlum og stórum 3-undum o.s.frv.

3) læra hljóma og læra að heyra hljómaskipti.  –  Læra hvernig hljómar eru byggðir upp. Læra að heyra hvenær á að skipta um hljóm (hljómaskipti).

4) hljómsetja lög og leika þau í ýmsum tóntegundum með mismunandi undirspili.  –  Læra hvernig hægt er að búa til undirspil úr hljómum á ýmsa vegu, t.d. með því að nota liggjandi hljóma, brotna hljóma, Alberti-bassa og valstakt.

5) leysa ýmis tæknileg atriði án nótna.  –  Þetta er mjög mikilvægt atriði. Ákveðin tæknileg atriði eru leyst á nótnaborðinu án nótna, áður en nemandinn fer að æfa lög eða æfingar í nótnabókinni þar sem þau koma fyrir.

Aðferðin snýst ekki eingöngu um það að gera nemandann hæfan til að spila eftir eyranu (eftir minni), heldur styður hún einnig við ýmsa þætti í hefðbundinni nótnakennslu.

Ég nefni þessa kennsluaðferð blandaða aðferð, vegna þess að ég legg áherslu á að gera nemandann hæfan til að spila án nótna, þ.e.a.s. eftir eyranu (eftir minni) og einnig að spila eftir nótum (nótnalestur). Til þess að ná þessu markmiði þarf að skipta kennslustundinni til helminga. Í fyrri hluta kennslustundarinnar er kennt án nótna, en nótnalestur í síðari hlutanum.