Að spila á píanó eftir eyranu 2. hefti

 

 

 

Að spila á píanó eftir eyranu 2. hefti 

728016 Ad spila eftir eyranu 2. hefti

Í þessari bók er haldið áfram að bæta við þann þekkingargrunn sem nemandinn hefur tileinkað sér eftir að hafa farið kerfisbundið í gegnum bókina Að spila á píanó eftir eyranu 1. hefti. Laglínurnar í þessari bók spanna meira tónsvið, hljómarnir eru notaðir á fjölbreytilegri hátt og pedalnotkun hefst. Allt miðar þetta að því að auka skilning og tilfinningu nemandans á uppbyggingu laglína og hljóma og að þjálfa tilfinningu og færni hans á hljómborðinu.

Allt það sem nemandinn lærir og þjálfar í þessum bókum miðar einnig að því að gera hann hæfari til að læra nótnalestur. Það að lesa nótnatákn og koma þeim til skila á nótnaborðinu er býsna flókið ferli. Það reynir ekki einungis á lestrarhæfni nemandans heldur einnig á hreyfigetu handanna og samþættingu þeirra.

Markmiðið með útgáfu þessara bóka er, að lestur hljómabókstafa, að pikka upp laglínur og hljóma, þ.e.a.s. að spila eftir eyranu (eftir minni), að spinna stef, að semja tónlist og aðrir skapandi þættir, verði jafn sjálfsagðir og eðlilegir þættir í náminu eins og að læra nótnalestur.

Líta má á þessar bækur sem ákveðna beinagrind, þ.e.a.s. lögin eru skráð niður á nótur með hljómabókstöfum fyrir ofan. Fyrir neðan lögin eru hljómarnir skráðir með nótum og sýnt hvernig hægt er að nota þá sem undirspil með laglínum. Nú er það svo, að sem betur fer er hægt að gera þetta á ýmsa vegu og vil ég hvetja nemendur eindregið til að reyna jafnframt að búa til annars konar undirspil en gefin eru upp með lögunum. Allt frumkvæði nemendanna er af hinu góða.