Diskar

Frontur - Undir Dalanna sol  2

Hlustunardæmi: https://open.spotify.com/album/49H9EW1ni26LbGMzct2sC3?si=FoB8XMB2QeG2vuJLe3yBRw

Geisladiskurinn “Undir Dalanna sól” kom út árið 2005. Á diskinum eru 14 lög eftir mig, sem ég útsetti fyrir hljómsveit, einsöng og tvísöng. Ég fékk til liðs við mig landsþekkta söngvara til að syngja lögin en þeir eru: Sigrún Hjálmtýsdóttir, Óskar Pétursson, Bergþór Pálsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Álftagerðisbræður, sem syngja eitt lag, en það er upphafslag disksins. Einnig syngja stúlkur úr Stúlknakór Reykjavíkur og félagar úr Skagfirsku söngsveitinni ásamt einsöngvurum í nokkrum lögum. Síðasta lag disksins heitir Tengdamömmuvalsinn, en það lag er útsett fyrir hljómsveit og fiðlusóló. Það er dóttir mín, Helga Þóra Björgvinsdóttir, sem leikur þar einleik. Einnig má geta þess að Selfyssingurinn Jóhann Stefánsson trompetleikari leikur nokkur sóló á diskinum. Lögin eru samin við ljóð eftir ýmsa ljóðahöfunda, m.a. Jón frá Ljárskógum sem á fjögur ljóð, en þau heita: Stúlkan mín, Sólskinsbarn, Kvæðið til konunnar minnar og Kveðja heimanað. Bjarni Stefán Konráðsson á þrjú ljóð og Jón Sigfinnsson, Hallgrímur Jónsson, Kristján Hreinsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Stefán frá Hvítadal og Þuríður Kristjánsdóttir eiga öll eitt ljóð hvert. Lagið Undir Dalanna sól við ljóð Hallgríms Jónssonar (bróður Jóns frá Ljárskógum) hefur verið gefið út á fjölmörgum diskum, en er nú í nýjum búningi og það eru þeir Óskar Pétursson og Bergþór Pálsson sem flytja þennan vinsæla dúett ásamt hljómsveit. Hljómsveitina skipa m.a. hljóðfæraleikarar út Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frontur - Allt sem eg er

Hlustunardæmi: https://open.spotify.com/album/3iSp1l7CLbP2OXOznWVU4f?si=NJjbQpPVShCCggv1cM4VaQ&dl_branch=1

Geisladiskurinn “Allt sem ég er” kom út árið 2009. Aðalsöngvarinn á diskinum er Óskar Pétursson, en með honum syngja í nokkrum lögum, Björgvin Halldórsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson (Gói). Tónlistin á diskinum er eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, en um útsetningar sá Karl Olgeirsson. Björgvin og Óskar hafa starfað mikið saman og hefur Óskar ásamt bræðrum sínum sungið þó nokkuð af lögum Björgvins. Þar á meðal er lagið Undir Dalanna sól, sem Álftagerðisbræður gerðu vinsælt á sínum tíma. Meðal textahöfunda má nefna Ragnar Inga Aðalsteinsson, Kristján Hreinsson, Davíð Stefánsson, Bjarna Stefán Konráðsson, Halldór Laxness, Guðmund Kr. Sigurðsson og Sigurbjörn Einarsson. Lögin og ljóðin eru allt frá því að vera létt og leikandi uppí að vera alvarleg íhugun um lífið og tilveruna. Eins og fram kemur hér að ofan, þá syngja þrír gestasöngvarar með Óskari á diskinum. Fyrst skal nefna þau Björgvin Halldórsson og Guðrúnu Gunnarsdóttur, en þau eru bæði fyrir löngu orðnir landsþekktir söngvarar. Björgvin syngur titillag disksins ásamt Óskari sem heitir “Allt sem ég er”. Í þessu lagi sýna þeir báðir sínar bestu hliðar. Guðrún syngur lagið “Sumarnótt” ásamt Óskari, sem er létt og leikandi lag þar sem hlýja radda þeirra fær að njóta sín til fulls. Að lokum er það leikarinn snjalli Guðjón Davíð Karlsson (Gói), sem fer á kostum í laginu Neyslu(kv)æði sem er við texta Ragnars Inga Aðalsteinssonar. Þetta er bráðskemmtilegur texti sem gerir góðlátlegt grín að neysluæði Íslendinga og öðrum nautnum sem því fylgja.